Aðili að ICCF

 

Um bréfskák

Bréfskák er það form skákar sem tefld er með þeim hætti að leikirnir eru sendir með pósti (póstkorti, bréfi, vefpósti (e-mail) eða vefþjóni (webserver, sjá mynd 2). Hið hefðbundna sendingaform leikja er póstkort með mynd af taflborði þar sem reitir þess eru merktir með tölustöfum (sjá mynd 1). Þetta upphaflega form bréfskákar hefur nær alveg vikið fyrir vefþjónum, sem eru allsráðandi í dag. Umhugsunartími á hefðbundnum póstkortsmótum er þrír dagar á leik, en fimm dagar á leik í vefpósts- og vefþjónsmótum.

Mynd 1. Hefðbundið form bréfskákar

Fyrsti leikur væri t.d. 1. e4 sem ritast þá 1. 5254


Mynd 2. Viðmót vefþjóns ICCF sem hefur leyst kortin af hólmi

Þemamót
Annað afbrigði bréfskákar eru svokölluð þemamót. Þá er keppt í ákveðinni skákbyrjun (t.d. Ruy Lopez, Marshall Gambit C89) með báðum litum. Þrír Íslendingar hafa sigrað í Thematic Tournaments ICCF mótum (sjá hér): Árni H. Kristjánsson sigraði í TT-2-98 Morra Gambit B21, Kári Elíson í TT-11-98 Shara-Hennig Gambit D32 og TT-7-95 King's Gambit og Gunnar F. Rúnarsson í TT-10-03 Slejpner A00.

Upphaf bréfskákar
Elstu óstaðfestu heimildir um bréfskák eru frá 9. öld en þá er talið að gríski keisarinn Níkefórus I og Harun-al Rashid kalífi af Bagdad hafi teflt bréfskák. Einnig er talið að Henry I konungur Englands og Loðvík VI konungur Frakklands hafi teflt bréfskák árið 1119.
      Fyrstu staðfestu bréfskákirnar fóru fram árið 1804 þegar Þjóðverjinn Friedrich Wilhelm von Mauvillon atti kappi við ónefndan andstæðing í þremur skákum. Mauvillon vann tvær skákir og gerði eitt jafntefli og birti þær í skákbók, Anweisung zur Erlernung des Schachspiels, sem kom út árið 1827.
      Hinn 23. apríl árið 1824 hófst kunn bréfskákkeppni á milli skákfélaga í London og Edinborg sem Skotar unnu fjórum árum síðar. Englendingarnir völdu óhefðbundna byrjun, 1.e4 e5 2.Nf3 Nc6 3.d4, en töpuðu skákinni. Eitthvað sáu Skotar jákvætt við þessa byrjun og beittu henni sjálfir með góðum árangri í tveimur skákum í einvíginu. Þetta varð til þess að byrjunin var nefnd „The Scotch Opening“. Nokkur dagblöð birtu leikina jafnóðum og var það nýmæli. Sama ár fór fram bréfskákkeppni á milli skákklúbba í Amsterdam og Rotterdam. Tefldar voru tvær skákir og vann Amsterdam báðar.
      Í kjölfarið færðust slíkar keppnir milli borga og bæja í vöxt. Árið 1834 tefldu París (Club Parisien) og London (Westminster Chess Club) tvær bréfskákir sem stóðu yfir í tvö ár. Englendingar hófu leik með 1.e4 sem Frakkar svöruðu með 1...e6. Á þessum tíma var þetta vinsælasta vörnin gegn kóngpeðsbyrjun í Frakklandi og nefnd því óþjála nafni "King's Pawn one sneak". Eftir keppnina var byrjunin endurnefnd „French Defence“.
      Svíar og Danir lögðu snemma fyrir sig bréfskák. Óstaðfestar heimildir herma að skákfélög í Gautaborg og Stokkhólmi hafi teflt tveggja skáka einvígi árið 1831 sem lauk með sigri Stokkhólms. Árið 1836 sigruðu dönsku bræðurnir Christen og Hendrik Møller skákfélag í Kaupmannahöfn í fyrstu bréfskákinni sem tefld var í Danmörku.
      Upp úr 1850 hófu skáktímarit að standa fyrir bréfskákmótum og í lok 19. aldar var það orðið algengt fyrirkomulag. Árið 1888 stóð franska vikublaðið Le Monde Illustré fyrir fyrsta alþjóða bréfskákmótinu með 25 þátttakendum. Þá stóð danska skáktímaritið Tidskrift for Skak fyrir norrænum mótum eftir að útgáfa þess hófst 1895. Um aldamótin 1900 var bréfskák orðin útbreidd og teflt var heimsálfa á milli.

Alþjóðasamtök
Árið 1870 var fyrsta bréfskákfélagið, The Caissa Correspondence Club, stofnað á Englandi. Á næstu áratugum óx bréfskákinni fiskur um hrygg og ljóst var að stofna þyrfti heildarsamtök. Árið 1928 var fyrsta alþjóðasambandið í bréfskák, Internationaler Fernschachbund, stofnað í Berlín. Það efndi til fyrstu Evrópukeppninnar í bréfskák árið 1935. Tveimur árum síðar var, að frumkvæði alþjóðasambandsins, ákveðið að efna til heimsmeistarakeppni en ekkert varð úr framkvæmdinni vegna heimsstyrjaldarinnar síðari. Annað alþjóðasamband, International Correspondence Chess Association (ICCA), var stofnað árið 1945. Á vegum þess hófst fyrsta heimsmeistarakeppnin í bréfskák árið 1946.
     Árið 1951 var Alþjóðabréfskáksambandið, International Correspondence Chess Federation (ICCF), stofnað og starfar það enn með 65 aðildarlöndum. Sambandið hefur náið samstarf við Alþjóðaskáksambandið (FIDE). ICCF stendur fyrir alls kyns mótum einstaklinga og sveita. Auk heimsmeistarakeppni og Ólympíuskákmóta, sem haldin hafa verið frá árinu 1946, stendur sambandið fyrir Evrópumótum (fyrst haldið 1955), þemamótum og ýmsum öðrum mótum.

Upphaf bréfskákar á Íslandi
Talið er að Þorvaldur Jónsson (1837–1916), héraðslæknir á Ísafirði, hafi verið fyrstur Íslendinga til að tefla bréfskák rétt fyrir aldamótin 1900. Tefldi hann við meðlimi í Köbenhavns Skakforening og skákmenn í Reykjavík. Árið 1935 hugðist Skákblaðið efna til keppni í bréfskák til styrktar skákiðkun í landinu og birti blaðið reglur um fyrirkomulag keppninnar. Af keppninni varð ekki, né heldur þeirri sem Nýja skákblaðið reyndi að koma á fót árið 1940 um titilinn Bréfskákmeistari Íslands.
     Eftir síðari heimsstyrjöldina jókst bréfskákiðkun lítillega og nokkrir íslenskir skákmenn hófu þátttöku í alþjóðlegum bréfskákmótum. Eftir sem áður var íslensk bréfskák í skötulíki og vakti það undrun margra skákunnenda. Í skákdálki Morgunblaðsins hinn 1. febrúar 1953 var undrast hversu lítið færi fyrir bréfskák hér á landi. Bent var á að erlendis væri bréfskák mikið stunduð og hefði svo verið um langan aldur. Þannig hefðu margir af bestu skákmeisturum heims hlotið sína grundvallarþjálfun. Lengi vel voru póstsamgöngur, bæði innanlands og við útlönd, svo strjálar að vandkvæði hafi verið að koma leikjum á milli. Hins vegar hefðu stöðugar flugsamgöngur síðustu ára rutt þessari hindrun úr vegi og því ætti fátt að vera því til fyrirstöðu að íslenskir skákmenn tefldu bréfskák.
      Á haustdögum 1963 vann stjórn Taflfélags Reykjavíkur að því að koma á bréfskákkeppni milli Íslands og Sovétríkjanna en ekkert varð úr þeim áformum. Tímaritið Skák hleypti fyrstu bréfskákkeppninni af stokkunum árið 1964 en hún lognaðist fljótlega út af. Skáksamband Íslands (SÍ) sýndi bréfskák lengi tómlæti og því neyddust allmargir íslenskir skákmenn til að tefla sem félagar í erlendum sérsamböndum. Sem dæmi um tómlætið má nefna að vorið 1967 barst SÍ boð frá sænska skáksambandinu um landskeppni í bréfskák. SÍ hafnaði boðinu og bar við áhugaleysi tveggja sterkustu skákmanna þjóðarinnar. Var þessi afgreiðsla SÍ harðlega gagnrýnd og á það bent að Ísland, þessi mikla skákþjóð, væri ein fárra þjóða sem tæki ekki þátt í bréfskákmótum.
      Árið 1969 var tveimur Íslendingum boðin þátttaka í Norðurlandamótinu í bréfskák. Hver þjóð tilnefndi tvo keppendur og fyrir hönd Íslands tefldu Bjarni Magnússon og Jóhann Þórir Jónsson. Mótinu lauk árið 1972 með glæsilegum sigri Bjarna en Jóhann þurfti að hætta keppni. Árið 1975 tók Skáksamband Íslands loks þessi mál upp á sína arma og skipaði sérstaka bréfskáknefnd (Þórhallur B. Ólafsson, Bjarni Magnússon og Jón Þ. Þór) til að skipuleggja bréfskák. Nefndin gerðist aðili að ICCF og á vegum hennar hófst fyrsta Bréfskákþing Íslands árið 1975. Þrátt fyrir að mótið hafi byrjað 1975 var ákveðið að miða það við 1974–1976. Íslendingar tóku þátt í VII Ólympíubréfskákmótinu sem hófst 1972 og árið 1975 hófu tveir Íslendingar þátttöku í heimsmeistarakeppni ICCF. Hinn 1. febrúar 1976 hófst fyrsta landskeppni Íslendinga í bréfskak. Teflt var við Svía á 20 borðum og lauk keppninni í júní 1979 með sigri Svía sem hlutu 20,5 vinninga gegn 18,5 vinningum Íslendinga.

Félag íslenskra bréfskákmanna stofnað
Hinn 12. september 1991 var haldinn, í húsakynnum Skáksambands Íslands, stofnfundur Félags íslenskra bréfskákmanna. Helstu hvatamenn að stofnun félagsins voru Jón A. Pálsson, Þórhallur B. Ólafsson og Bjarni Magnússon. Um tveir tugir manna mættu á fundinn sem fór í alla staði vel fram undir fundarstjórn Guðmundar G. Þórarinssonar þáverandi forseta SÍ. Stofnun félagsins var samþykkt samhljóða og voru stofnfélagar 19 talsins. Fyrsta stjórn félagsins var þannig skipuð: Þórhallur B. Ólafsson formaður, Jón Á. Pálsson ritari, Baldur Daníelsson gjaldkeri og meðstjórnendur Þorleifur Ingvarsson og Eggert Ísólfsson. Félagið varð aðili að SÍ og Alþjóða bréfskáksambandinu (ICCF). Félagið gaf út fréttablaðið Bréfskáktíðindi um nokkurra ára skeið.

Titilhafar í bréfskák
Árið 1981 var Jón A. Pálsson útnefndur alþjóðlegur meistari IM í bréfskák, fyrstur Íslendinga. Titilhafar eru eftirtaldir:

ICCF Alþjóðlegir bréfskákmeistarar (IM)
Jón A. Pálsson 1981
Bragi Kristjánsson 1984
Frank Herlufsen 1989
Hannes Ólafsson 1991
Bragi Þorbergsson 1992
Áskell Örn Kárason 1993
Jón Kristinsson 1994
Jón Árni Halldórsson 1997
Gísli S. Gunnlaugsson 1999
Haraldur Haraldsson 2007
Árni H. Kristjánsson 2012
Daði Örn Jónsson 2013
Eggert Ísólfsson 2015

ICCF Bréfskákmeistarar (SIM)
Jón A. Pálsson 1999
Jón Árni Halldórsson 1999
Áskell Örn Kárason 2001
Daði Örn Jónsson 2015

ICCF Stórmeistarar í bréfskák (GM)
Hannes Ólafsson 1995
Bragi Þorbergsson 1998

Bréfskákmeistarar Íslands
Fyrsta mótið um titilinn „Bréfskákmeistari Íslands“ hófst árið 1974, síðan þá hefur verið keppt 22 sinnum um titilinn. Eftirtaldir hafa orðið sigurvegarar:

I. 1974 - 1976 Jón A. Pálsson og Kristján Guðmundsson
II. 1978 - 1980 Frank Herlufsen
III. 1979 - 1981 Hannes Ólafsson
IV. 1980 - 1982 Árni Stefánsson †
V. 1981 - 1983 Jón A. Pálsson
VI. 1982 - 1984 Haukur Kristjánsson †
VII. 1983 - 1985 Jón Þ. Þór
VIII. 1984 - 1986 Ingimar Halldórsson
IX. 1985 - 1987 Jón Kristinsson
X. 1986 - 1988 Jón Kristinsson
XI. 1987 - 1989 Árni Stefánsson †
XII. 1988 - 1990 Áskell Örn Kárason
XIII. 1989 - 1991 Bjarni Magnússon † og Jón Kristinsson (tafla)
XIV. 1990 - 1992 Kristján Guðmundsson (tafla)
XV. 1991 - 1993 Kári Sólmundarson (tafla)
XVI. 1993 - 1995 Magnús Gunnarsson og Baldur Fjölnisson (tafla)
XVII. 1994 - 1996 Jón Kristinsson (tafla)
XVIII. 1997 - 1999 Vigfús Óðinn Vigfússon (tafla)
XIX. 1998 - 2000 Gísli S. Gunnlaugsson og Hörður Þ. Garðarsson (tafla)
XX. 2002 - 2004 Jónas Jónasson (tafla)
XXI. 2006 - 2008 Jónas Jónasson (tafla)
XXII. 2010 - 2012 Árni H. Kristjánsson (tafla)

© 2006 Félag íslenskra bréfskákmanna